Á dögunum komu félagsmenn og gestir saman í Síðumúla 10 til að fagna þeim tímamótum að framkvæmdum við höfuðstöðvar Búseta er lokið. Viðburðurinn var afar vel sóttur og ríkti góð stemning meðal gesta sem fengu að upplifa nýtt og endurbætt húsnæði í fyrsta sinn.
Gestum gafst tækifæri til að rölta um húsið, skoða nýjan fjölnotasal á þriðju hæð og kynnast starfsemi félagsins nánar. Viðburðurinn hófst með ávarpi Bjarna Þórs Þórólfssonar framkvæmdastjóra sem setti dagskrána. Að því loknu flutti Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, ávarp og klippti á borða við formlega opnun salarins. Jón Ögmundsson, stjórnarformaður Búseta, hélt erindi þar sem hann fór yfir mikilvægi Búseta í íslensku samfélagi, farsælan vöxt félagins á síðustu árum og spennandi framtíðaráform. Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason flutti vel valin lög sem heilluðu gesti. Þá kynnti Hlíf Böðvarsdóttir, forstöðumaður samskipta- og þjónustusviðs, viðburðadagskrá sem er framundan hjá félaginu. Boðið var upp á léttar veitingar og skemmtilegt spjall eftir að formlegri dagskrá lauk.
„Tákn um vöxt, framfarir og framtíðarsýn“
Í ávarpi sínu ávarpaði Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, gesti með orðum um mikilvægi þessara tímamóta. Hann lagði áherslu á þakklæti í garð borgarstjóra og samstarfsins við Reykjavíkurborg, sem og frumkvöðlanna sem stofnuðu félagið fyrir rúmum 40 árum. „Endurgerð höfuðstöðva Búseta er tákn um vöxt, tákn um framfarir og tákn um framtíðarsýn. Þetta er áfangastaður í ferðalagi – og líka upphaf nýs kafla,“ sagði hann meðal annars. Bjarni minnti einnig á að nýjar höfuðstöðvar væru ekki aðeins vinnustaður heldur einnig rými sem hvetur til samvinnu, nýsköpunar og fagmennsku – og glæsilegur vettvangur fyrir fræðslu, fundi og fjölbreytta viðburði til heilla fyrir félagsmenn.
„Við fögnum framtíðarsýn sem raungerist“
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, tók við orðinu af Bjarna og lagði áherslu á mikilvægi Búseta sem samfélagslega ábyrgðs aðila:
„Búseti hefur í gegnum tíðina sýnt hvað það þýðir að vera samfélagslega ábyrgur aðili… þessi vel lukkaða endurgerð höfuðstöðvanna er skýr birtingarmynd frumkvöðlaanda og framsýni sem ríkir hjá Búseta.“
Hún minnti á að framtíðin kalli á nýjar lausnir og hugrekki – og að Búseti sé nú betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr til að vera mikilvægur þátttakandi í þeirri vegferð. „Við stöndum hér í dag til að fagna glæsilegum höfuðstöðvum Búseta – en í raun fögnum við miklu meira en því. Við fögnum því að sjá framtíðarsýn raungerast og við fögnum samstöðu og samvinnu,“ sagði borgarstjóri.
Nýr vettvangur fyrir félagsmenn
Endurbætur á höfuðstöðvunum gengu vel. Önnur hæð hússins var endurnýjuð í hólf og gólf og ofan á húsið var byggð ný 300 fermetra hæð. Þar er nú glæsilegur fjölnotasalur sem mun nýtast félagsmönnum á margvíslegan hátt – sem vettvangur fyrir fræðslu, samveru, fundi og fjölbreytta viðburði.
Tímamót í sögu Búseta
Opnun nýju höfuðstöðvanna markar tímamót í starfi félagsins. Fjölmenni og jákvæð viðbrögð gesta sýna að breytingarnar mælast vel fyrir og salurinn á eftir að verða mikilvægur samkomustaður fyrir félagsmenn um ókomin ár.